VIRK ákvað að ýta úr vör vitundarvakningu um kynferðislega áreitni á vinnustöðum og hvetja þannig fyrirtæki til að auka þekkingu og þjálfun stjórnenda þegar kemur að óviðeigandi hegðun og áreitni. Í nálgun okkar vildum við einbeita okkur að menningunni og meðvirkninni sem gerir lítið úr og þaggar þau niður sem krefjast breytinga. Slík vinnustaðamenning stöðvar framþróun. Setningin „Það má ekkert lengur“ dúkkaði fljótt upp í hugmyndavinnu og við ákváðum að nota húmor til þess að varpa ljósi á þá skekkju sem felst í þeim hugsunarhætti. Með þessu vonumst við til að afvopna þau sem halda úreltum hugmyndum á lofti um að þolendur beri sjálfir ábyrgð á stöðu sinni, þurfi að læra að taka gríni, slaka á og hætta að væla.