Ný ísöld er hafin

Er þetta hljómsveit? Er þetta eitthvað „stunt“? Er þetta kaldhæðni? Hvað er verið að auglýsa hérna? Allt voru þetta spurningar sem kviknuðu þegar hljómsveitin IceGuys kom fram á sjónarsviðið. Það sem innsiglaði svo endanlega vinsældir þeirra voru samnefndir leiknir þættir sem sýndir voru í Sjónvarpi Símans. 

Ímyndarsköpun og markaðsefni sóttu innblástur í strákahljómsveitir 10. áratugarins, og höfuðmarkmiðið var að vekja athygli á þáttunum. Úrvals dagskrárgerð, víðfeðm herferð og auðvitað hæfileikar og persónutöfrar hljómsveitarmeðlima gerðu IceGuys að menningarlegu fyrirbæri sem sendi ískaldan skjálfta um allt samfélagið.