Hönnunarmars

Því ekki það? Íslenski andinn á HönnunarMars

Icelandair hefur verið styrktaraðili HönnunarMars undanfarinn áratug. Til þess að halda upp á HönnunarMars í raunheimum 2021 ákvað Icelandair því að gera litla mynd um íslenska andann í heimi hönnunar. Þar erum við svo sannarlega á heimavelli.

Í samstarfi við stjórnendur HönnunarMars komumst við í samband við átta hönnuði, þau Björn Steinar Blumenstein, Halldór Eldjárn, Hrólf Karl Cela, Jón Helga Hólmgeirsson, Magneu Einarsdóttur, Marcos Zotes, Valdísi Steinarsdóttur og Ýri Jóhannsdóttur. Við settumst niður með þeim öllum, bæði á fjarfundum og í alvörunni, og köfuðum með þeim ofan í íslenska andann í heimi hönnunar, verkefnin þeirra, hvernig er að vinna sem hönnuður á Íslandi og margt fleira.

Við hefðum alveg getað sett saman mun lengri mynd því viðmælendurnir höfðu frá svo mörgu skemmtilegu að segja og veittu okkur mikinn innblástur. Takk fyrir ykkur, kæru hönnuðir.

Þema HönnunarMars 2021 var sjálfbærni og því vildum við taka á því málefni líka. Þar sem Icelandair og Air Iceland Connect sameinuðust nýlega undir merkjum Icelandair áttu þau silkislæður á lager. Þessar slæður, sem voru hluti af einkennisbúningum Air Iceland Connect, hafa flogið vítt og breitt um Ísland síðustu ár en vantaði nýtt hlutverk í kjölfar samþættingarinnar.

Hönnunarmars kom okkur því í samband við hönnunarteymið Flokk till You Drop, sem tóku að sér að sauma svefngrímur úr silkislæðum. Þannig nýttust þær áfram og á nýjan hátt. Þessar slæðusvefngrímur eru bara einn liður í vegferð Icelandair að sjálfbærari ferðaiðnaði, því margt smátt gerir eitt stórt.