Harpa – endurmörkun

Menningarhúsið Harpa stendur á tímamótum. Í tilefni tíu ára afmælisársins var farið í endurmörkun ásýndarinnar þar sem lögð var áhersla á að gera hana aðgengilegri og líflegri.

Vörumerki Hörpu er margþætt upplifun, lifandi, tilraunakennt og sígilt. Snertifletirnir eru margir líkt og margflötungurinn sem hún byggir á og því þótti okkur mikilvægt að húsið ætti sér hljóðrænt einkenni, ekki síður en sjónrænt. Nýtt hljóðmerki er búið til úr tónkvíslinni sem merki Hörpu byggir á.

Ný ásýnd stendur á grunni sjálfrar byggingarinnar sem er listaverk á heimsmælikvarða. Grunnformið í glerhjúpnum er „Quasi“ kubburinn, einstakt íslenskt sköpunarverk. Form Quasi-kubbsins var útgangspunktur okkar við sköpun nýrrar ásýndar, bæði í 2D og 3D útfærslum. Þannig verður sterkasta einkenni húss þjóðarinnar, byggingin sjálf, að hornsteini ásýndarinnar.

Einföld litapaletta var sprengd upp til að líkja eftir dichromatic áhrifum glerhjúparins. Litadýrð ásýndarinnar er síbreytileg eftir viðburðum og markhópum og í hreyfanlegum formheimi tekst Hörpu að vera síung með breyttri tækni og nýjum tímum.

Með nýrri ásýnd er reynt að fanga margbreytileika viðburða Hörpu og taka hana skrefi nær þjóðinni. Mannleg upplifun er í forgangi í myndavali og skýr talandi auðveldar öllum Íslendingum aðgengi.

Harpa er hús þjóðarinnar þar sem allir geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi.