Er brjálað að gera?

Virk starfsendurhæfingarsjóður hjálpar fólki sem fellur af vinnu­markaði að komast inn á hann aftur. Virk vildi koma af stað forvarnarverkefni til að minnka þetta brottfall. Áskorunin var að vekja markhópinn til umhugsunar um álag í einkalífi og starfi, án þess að predika.

Til þess að undirbúa jarðveginn var sett af stað „teaser”-herferð um svokölluð Beacons-snjallsímagleraugu sem myndu gera notandanum kleift að nota snjallsímann sinn þótt það virtist slökkt á skjánum og þar af leiðandi vera til taks öllum stundum. Varan vakti sterk viðbrögð og umræður um hvert við værum komin sem þjóðfélag voru áberandi.

Hugmyndin að auglýsingunum sprettur út frá því að enginn virðist maður með mönnum nema „að hafa brjálað að gera” enda höfum við Íslendingar lengi státað okkur af dugnaði. Við vildum vekja fólk til umhugsunar og snúa upp á þetta hugarfar okkar á spaugilegan hátt. Útkoman var m.a. 10 sketsar um Sigríði millistjórnanda sem þekkir illa mörk vinnu og einkalífs. Hún lendir í aðstæðum sem eru bæði grátbroslegar en líka nokkuð kunnuglegar og vekja okkur til umhugsunar. Komdu þér vel fyrir og horfðu á þær allar.

Allt efni vísaði inn á lendingarsíðu átaksins þar sem bæði starfsmenn og vinnuveitendur geta nálgast góð ráð til þess að draga úr álagi og efla heilsu.

Niðurstöður könnunar sem Hvíta húsið og Virk létu gera til að meta árangur herferðarinnar benda til þess að hún hafi haft víðtæk áhrif á fólk.

86% svarenda höfðu séð auglýsingarnar og flestir, eða 76%, segja þær hafa vakið sig til umhugsunar um mikilvægi þess að hafa jafnvægi á vinnu og einkalífi. Athyglisvert er að auglýsingarnar virðast ná sérstaklega vel til fólks sem upplifir ójafnvægi þarna á milli. Aðeins 10% svarenda sögðust alltaf upplifa jafnvægi, 50% oftast og 40% stundum, sjaldan eða aldrei.

Næstum helmingi líkar vel við auglýsingarnar og segja að þeim líki hvað þær eru „fyndnar” og „raunsæjar”.