Þegar Já.is opnaði vöruleitarsíðu réðumst við í umfangsmikla stafræna endurmörkun vörumerkisins – og við hlutum svo Lúður fyrir verkefnið.
Við vildum skapa nútímalega og ferska stafræna ímynd fyrir Já.is sem gerði vörumerkinu kleift að skera sig út í hraðskreiðum heimi tækninnar. Já.is er lifandi og ungt vörumerki og auglýsingaskilaboðin eru grípandi, létt og skondin.
Við vildum skapa þessum skilaboðum lífrænt og heildrænt pláss með endurmörkuninni, og með það að markmiði kynntum við nútímalegri liti til sögunnar og leyfðum tón fyrirtækisins að tala við þá liti.
Litapallettan var sérvalin fyrir stafræna skjái og með það í huga að grípa athygli áhorfandans. Litirnir endurspegla gleði, léttleika og flæði, sem er í takt við raddblæ fyrirtækisins. Til að brjóta upp bakgrunna og skapa dýpt notuðum við form innblásin af talbólunni, merki Já.is.